Af hverju Mánahöll varð til

Ég veit hvernig það er að leggja allt í sölurnar.

Í mörg ár vann ég fyrir stórfyrirtæki, gaf 150%, fór seint heim, oft ekki fyrr en eftir miðnætti. Ekki vegna þess að ég þurfti þess, heldur vegna þess að ég elskaði það sem ég var að gera. Ég hélt að ástríða og hollusta myndu alltaf tala sínu máli.

En eftir sjö ára feril hjá stórfyrirtæki fann ég að leiðir okkar skildu. Ég stóð frammi fyrir vali: Að halda áfram á sömu braut eða skapa mína eigin.

Þar varð vendipunktur. Ég áttaði mig á því að ef ég ætlaði að leggja alla þessa orku og ástríðu í verkefni, þá yrði það að vera fyrir sjálfan mig og í samstarfi við fólk sem ég virkilega trúi á.

Þannig varð Mánahöll til.

Ég ákvað að nota alla þá þekkingu og reynslu sem ég hafði aflað mér til að styðja við þau fyrirtæki sem standa mér næst. Fólkið sem brennur fyrir sínu starfi, byggir það upp með seiglu og þarf einhvern sérhæfðan samherja til að koma því á framfæri.

Mér þykir ómetanlegt að fá að vinna með fólki sem er frábært í sínu. Dýralækninum sem bjargar lífum en hefur ekki tíma fyrir auglýsingar, eða fasteignasalanum sem þarfnast hjálpar við að skapa vörumerki sem fólk treystir. Þarna fæ ég að gera það sem ég elska: að hjálpa öðrum að vaxa.

Ferðalagið sem mótaði mig

Ég hef ekki alltaf gengið beinu brautina. Ferillinn hefur verið fjölbreyttur. Ég hef unnið sem þjónn, barþjónn, sérfræðingur, verkefnastjóri og markaðsstjóri. Ég hef ferðast um heiminn með eina tösku, tekið stórar áhættur og lært að stíga út fyrir þægindahringinn, aftur og aftur.

Samhliða hef ég menntað mig, frá frumgreinanámi yfir í master í stjórnun nýsköpunar. Fyrir mér er menntunin ekki bara prófgráða. Hún er sönnun þess að ég gefst aldrei upp.

Uppfinningamaður í dulargervi

Þegar ég var krakki sagði ég að mig langaði að verða uppfinningamaður. Í dag sé ég að það var ekki svo fjarri lagi. Að hjálpa litlum fyrirtækjum að finna sína rödd og koma sér á framfæri er eins konar uppfinningastarf.

Mánahöll er ekki bara vinnustaður. Þetta er vettvangur þar sem ég vinn ekki sem verktaki, heldur sem samherji. Ég er ekki bara að búa til logo, byggja vefsíður eða setja upp auglýsingar. Ég er að hjálpa öðrum að láta drauma sína rætast.


Þetta er sagan mín. Hún er ekki bein lína, heldur full af beygjum og áskorunum. En það er einmitt það sem hefur kennt mér hvað það skiptir máli að finna rétta fólkið til að standa með sér.


Ásgeir Hólm Sævarsson

Ég hef ástríðu fyrir því sem ég geri. Eftir mörg ár í bransanum varð mér ljóst að ég vildi leggja alla mína orku og þekkingu í að styðja við fólk sem hugsar eins og ég.